FÖGNUÐU SAMVISTARLÖGUM Á MIÐNÆTTI
Mér er minnisstæð athöfnin sem var um miðnættið daginn áður [en lögin um staðfesta samvist gengu í gegn 1996]. Þá stóðum við að því trúarhópurinn að halda messu í Fríkirkjunni og hún var haldin kl. hálftólf 26. [júní] þannig að þegar dagurinn 27. [júní] rann upp þá vorum við saman í Fríkirkjunni. Það var alveg ótrúlega sterk athöfn og hafði sterk áhrif á marga. Það var eins og við yrðum aftur ein stór fjölskylda og sameinuðumst, fannst mér. Stóðum og sungum Nú dagur er risinn eftir Cat Stevens, Morning has broken, og þetta var bara alveg ólýsanlegt og hátíðleg stund. Bara það að standa allt í einu og vita það að það væri runninn upp dagur þar sem það væri staðfest með lögum að við ættum rétt á því að gangast við ást okkar eða velja okkur maka og fá hana viðurkennda eftir lögum. En það var náttúrulega árangur af margra, margra ára baráttu. Og ég er sannfærð um það að hann muni skipta máli í dag bara upp á sjálfsvirðingu og sjálfsmat okkar og alls þessa unga fólks sem á eftir að horfast í augu við kynhneigð sína og ég vona að leiðin verði styttri og beinni fyrir þau heldur en mörg okkar eldri.
Úr viðtali við Elísabetu Þorgeirsdóttur 1997.