skip to Main Content

ALLT ÖNNUR SAMTÖK Í DAG

Samtökin ’78 í mínum huga eru ekki lengur til. Þau voru byggð í kringum ákveðnar hugmyndir. Þau eru byggð á sínum tíma, ‘78, á róttækum hugsjónum, um ákveðnar baráttuaðferðir, sýnileika, pólitík sem skipti okkur öll máli, í kringum samstöðu, hommanna annars vegar, lesbíanna hins vegar og svo finna hvað við ættum sameiginlegt þótt að stundum færum við í sundur líka. Við höfum unnið okkar leið áfram á þeim nótum og skapað Samtökunum ’78 ákveðið nafn. Og við fengum fólk til að standa með okkur og trúa því, já, við erum að tala um mannréttindi, við erum að tala um réttlæti, við erum að tala um sanngirni og lesbíur og hommar – við notum okkar hugtök og við stöndum stolt með því og um það snúast Samtökin’ 78 sem upphaflega hétu félag homma og lesbía á Íslandi. Þau eru að mínu mati horfin.

Í staðinn er komin ný hreyfing. Samtök hinseginfólks á Íslandi. Það er algjörlega frábært að fólk hópi sig saman, þjappi sér saman um sín mál, ekki spurning, en ég sé það að þróunin allt frá 1978 til dagsins í dag segir okkur að á síðustu árum þá hafa baráttuaðferðir, samstaða, samvinna og hugsjónir í kringum lesbíur og homma, þá hefur sá þáttur vikið í aðrar áttir, þannig að í mínum huga er kominn nýr veruleiki og slíkum veruleika ber ný framtíð og nýtt líf. En við skulum passa upp á það að við eigum okkur sögu, menningu, og við eigum okkur aðferðir og við eigum tap og sorgir og sigra og sársauka og hamingju sem Samtökin’ 78, sem hópur fólks sem að var nánast eins og stórfjölskylda. Þessum tíma er lokið alla vega í nafni Samtakanna ’78 og mitt mat er að við ættum að kveðja. Kveðja þetta skeið, kveðja þessi 40 ár og Samtökin okkar eins og þau voru og sjá síðan hvað hinsegin fólk á Íslandi ætlar sér að skapa í sínu nafni fyrir sína framtíð og svo sjáum við hvað við gay fólk gerum í okkar lífi.

Margrét Pála Ólafsdóttir, 2017

 

Back To Top