skip to Main Content

ÖLLUM VAR HALDIÐ NIÐRI

Mér finnst stundum þegar verið er að tala um þessa hluti frá því áður fyrr, að þá er eins og fólk haldi að þetta hafi bara verið allt bara verið afskaplega huggulegt og notalegt nema það að það hafi verið fullt af vondu straight fólki sem hafi haldið gay-liðinu niðri. En það er ekkert þannig. Það var öllum haldið niðri. Það mátti ekki neitt. Þetta var allt í svarthvítu beinlínis, venjulegur karlmaður gat ekkert verið öðruvísi klæddur en í helst svört jakkaföt, þau máttu vera grá, brún, dökkblá, en þá var farið að verða svolítið skrýtið, og hvítri skyrtu og bindi. Ég byrjaði að ganga í þessu, það þótti bara sjálfsagður hlutur, í öðrum bekk í gagnfræðaskóla. Árið eftir fermingu var maður kominn í jakkaföt og allavega, jakka og buxur og ljósa skyrtu helst og bindi og maður fór ekkert í gagnfræðaskóla öðruvísi en að vera með skyrtu og bindi og það bara sagði sig sjálft.

Hvað þá þegar maður var kominn í menntaskóla, þá var þetta sjálfsagður hlutur, frakka og skjalatösku og allt saman.

En svona var þetta, það var allt hryllilega fast í formunum og það var ekkert leyft, það mátti ekki neitt. Þú máttir ekki einu sinni spila músík, hvað þá meir. Tíðarandinn var svona. Mér finnst dálítið líkt þessu að það skyldi vera dægurtónlist og það var á þriðjudagskvöldum, hvað fjörutíu mínútur, Lög unga fólksins, segir nú líka sitt, lög unga fólksins. Skelfilegt! Og svo man ég eftir því að á tímabili voru tuttugu mínútur á laugardagseftirmiðdögum með nýrri músík og maður sat um þetta þessar tuttugu mínútur fyrir utan það þá mátti þetta ekki neitt það var bara klassísk músik. Og þetta er ekki af illsku gert, þetta er til þess að ala fólkið upp, það hefur bara gott af þessu.

Brot úr viðtali við Veturliða Guðnason, 2005

Back To Top