skip to Main Content

ÞINGSÁLYKTUN UM STÖÐU SAMKYNHNEIGÐRA Á ÍSLANDI

Síðan ákvað ég að taka upp þetta mál sem var reyndar gamalt þingmál frá 1985–1986 sem Vilmundur Gylfason hafði verið með um að stuðla að. […] Þá ákvað ég að taka upp þetta mál og leggja fram þingsályktun sem fæli það í sér að íslenska ríkið beitti sér í því að mismunun gagnvart samkynhneigðum yrði afnumin á Íslandi og reynt að vinna gegn henni bæði eftir hinum formlegu leiðum sem byggist á lögum eða félagslega eða menningarlega og að það yrði settur upp starfshópur til að vinna að þessu máli. Ég ákvað að geta þetta að mínu fyrsta þingmáli sem ég myndi svona persónulega standa fyrir. Ég samdi þingsályktun, að vísu greinargerð, í samráði við formann Samtakanna ‘78 og ég lagði þetta fram í desember 1991 í þinginu. En hún komst nú ekki á dagskrá þessi ágæta þingsályktun fyrr en í lok mars 1992, hún var búin að koma oft á dagskrá og alltaf frestað eða tekin útaf dagskránni, þá fékk ég loks að tala fyrir henni klukkan hálftólf að kvöldi. Og það var sem sagt þetta var mitt fyrsta þingmál. […]

Mér fannst mikilvægt að hafa með mér fólk úr öllum flokkum á þessari þingsályktun, þannig að hún væri þverpólitísk. Og það sem að við horfðum á það var annaðhvort að það væru þá einstaklingar sem við vissum að áttu í sinni fjölskyldu eða hefðu reynslu af samkynhneigðu fólki og við vissum að mundu vilja standa við bakið á slíku máli í þinginu eða fólki sem við vissum að hefði látið sig svona mannréttindamál varða meira en aðrir á alþingi. Það var eiginlega þannig sem þetta fólk var valið. Meðflutningsmenn mínir voru Össur Skarphéðinsson, Guðrún Helgadóttir, Ólafur Þ. Þórðarson og Einar Már Guðfinnsson. Þegar ég talaði fyrir málinu þá held ég að þessir meðflutningsmenn mínir hafi setið í salnum en aðrir ekki. Fyrir utan forsetann sem stjórnaði fundi og uppi á palli sátu held ég tveir og hlustuðu. Ég skal alveg játa það að þegar ég fór fram með þetta mál, þá hafði ég vissan beyg af þeirri andstöðu sem að ég vissi að kæmi upp. Maður veit jú aldrei þegar maður er að setja mál á dagskrá í hverju maður hrærir og hvað kemur upp á yfirborðið þegar farið er að hræra í ákveðnu setlagi. En það var nú sannarlega óþarft vegna þess að það tók enginn til máls um þetta í þingsalnum. Það voru engir viðstaddir til þess að ræða þetta. Og svo man ég ekki einu sinni eftir að það væri nokkur einasta fjölmiðlaumræða um þetta sem heitið gæti. Svo fór þetta í þingnefnd og var þar þar til í lok apríl og þar var þetta heldur ekki rætt og afgreitt út úr þingnefndinni með því að menn samþykktu það að leggja til að þessi þingsályktun yrði samþykkt. En hún fór ekki í gegnum neina umræðu í reyndinni og það var eins og menn legðu ekki í umræðuna og treystu sér ekki til þess að taka þátt í henni. Þetta var svona takið frá mér þennan kaleik –  samþykkjum þetta bara og þá þurfum við ekki að vera að ræða þessi mál og taka okkur öll þessi orð í munn sem að því fylgja.

Lyktir mála urðu þau að Alþingi samþykkti þessa þingsályktun og ég man ekki eftir því að það væri neitt mótatkvæði gagnvart þessari ályktun sem er út af fyrir sig mjög merkilegt. Það var ekki vegna þess að menn hefðu talað sig í gegnum málið og það væri orðinn sameiginlegur skilningur og stuðningur á því heldur vildu menn bara koma þessu frá sér, það var a.m.k.mín tilfinning. En engu að síður má ekki gleyma því að allt hefur sinn tíma eins og þar stendur og ég held að það hafi verið búið að plægja þannig jarðveginn, eins og t.d. á kvennafrídaginn, að það var einfaldlega lag. Þetta er alltaf spurningin um að reyna að skynja tíðarandann og hvenær er rétti tíminn til þess að koma fram með mál til þess að þau fái framgang. Ég held við höfum bara hitt á þann tíma.

Úr viðtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, 2002

 

Back To Top