VIGDÍS FINNBOGADÓTTIR MÆTTI
Ég man bara hvað mér þótti vænt um að Vigdís Finnbogadóttir kom [að fagna samvistarlögunum 1996]. Og hún hafði alltaf sýnt okkur velvilja. Hún átti vinkonu í næsta húsi við Samtökin ‘78 niðri á Lindargötu, mig minnir að hún hafi heitið Sigga, alla vega bjó hún í næsta húsi fyrir neðan og forsetabíllinn, einkabíll forsetans var oft sko í innkeyrslunni þarna á milli Lindagötu 49 og næsta húss fyrir neðan. Og ég man eftir að þegar ég var að sópa tröppurnar fyrir tíu ára afmæli Samtakanna, sem hefur þá verið vorið 1988, þá rennir Vigdís í hlað, bara á laugardagshádegi eða svona og spyr: Hva, er eitthvað um að vera hér? […] Ég segi: Já, við erum að fara að halda upp á tíu ára afmæli Samtakanna. Og hún bara ljómaði svona eins og hún gat við hvern sem er: „Ég óska ykkur alls heilla í framtíðinni“. 1988! Og þetta er svona hlutur sem að maður bara gleymir ekki. Svona miklu máli skipti stuðningurinn, af því það var svo lítill stuðningur. Þannig að, ég segi bara – takk Vigdís, fyrir allt. Það hlýtur að vera í lagi að verða pínulítið sentimental ég er orðin svo gömul.
Lana Kolbrún Eddudóttir, janúar 2017