HJÓNABAND VAR EIGN KIRKJUNNAR
Nefndin sem sagt safnaði alls kyns vitnisburðum um stöðu og reynslu samkynhneigðra á Íslandi og Þorvaldur Kristinsson átti mikið af því efni. Hann var náttúrulega búinn að safna svo lengi sögum, reynslusögum. Síðan lágum við Guðni [Baldursson] yfir alls konar einmitt svona hvaða lög voru til, hvað var að gerast í veröldinni og aftur bendi ég á að internetið var ekki komið þannig að þetta var ansi svona miklir pappírsbunkar sem var verið að fara í gegnum.
[…] Þrasið snerist m.a. um, það var fulltrúi þarna frá Þjóðkirkjunni, og þrasið snerist um hvort þetta mundi heita hjónaband eða ekki, sem það náttúrulega mátti alls ekki því að kirkjan átti einkarétt á því hugtaki. Og svo var hitt sem að var svona þessi verndarlöggjöf sem var sömuleiðis bara verið að fara eftir því sem var þegar til annarstaðar víðsvegar um heiminn sem var í raun og veru, og bæta inn í stjórnarskrána, þessum þætti í viðbót við kyn- og kynþátt og trú, að kynhneigðin færi þar inn. Og þetta er þú veist, það var ekkert mál að vinna með Dómsmálaráðuneytinu, það var verst svona að þrasa við kirkjunnar menn í þessari nefnd. Og svo var sálfræðingur með okkur úr Háskólanum sem leiddi þetta starf.
[…] Stór hluti af skýrslunni eru reynslusögur og síðan var meirihluta- og minnihlutaálit um það hvað ætti að gera. Við vildum ganga lengra við Guðni í öllum málum, við vildum fá eitt hjónaband fyrir alla o.s.frv. skilurðu en þarna komu fyrstu tillögurnar að staðfestri samvist sem voru með þú veist, það var ekki kirkjuvígsla, það var ekki barnaættleiðing, það var ekki tæknifrjógvun, það var svona þú veist við máttum ekki eiga börn og máttum ekki gifta okkur í kirkju en svo bara líður tíminn og það breytist.
Lana Kolbrún Eddudóttir, janúar 2017