MISSTU AF FÉLAGSSKAP LESBÍA OG HOMMA
Samtökin … auðvitað hafði maður kannski heyrt þetta en þetta var ekkert sem hafði gripið mann því á þessum sama tíma ’78 þá er ég fréttamaður hjá útvarpinu. Kannski hef ég skrifað frétt um stofnun samtakanna því að mig rámar í það að einhvern tímann skrifaði ég einhverja frétt um homma eða lesbíur. […] Þá var það tilskipun að þá skyldi notað orðið kynvillingur. Mér finnst reyndar villingur alveg ægilega fallegt orð og kynvillingur […], það má sjá kómikina við það líka. En í reynd þá vorum við bara í það sterkum félagslegum tengslum og áttum svo marga hópa og fjölskyldu, þannig að einhver…það að leita út fyrir…maður bara missti af því þá. […] Við vorum kannski ekki mikið í að fara út fyrir það félagslega umhverfi sem við vorum í vegna þess kannski að það truflaði ekki okkur og við leystum þetta líka á ákveðinn máta. Til dæmis vorum við algjörir útilegumenn, því að á sumrin þá fórum við í útilegu hverja einustu helgi tvær saman. Og eitt sumarið mátti ganga að okkur næstum því upp við Langavatn á Mýrum því þangað fórum við til að veiða. Við sem sagt gerðum dálítið af því að veiða á stöng og það var kannski strákastelpueðlið í okkur, ég veit það ekki en – við svolítið misstum af þessum félagsskap lesbía og homma.
Úr viðtali við Nönnu Úlfsdóttur