FLÓTTI TIL KAUPMANNAHAFNAR
Við fórum til Kaupmannahafnar í ársbyrjun 78. og það hefur nú verið pælt svolítið í þessu, hversvegna var þessi ógurlegi flótti og það eru náttúrulega persónulegar ástæður hjá hverjum og einum, raunverulega sem ráða þessu. Hjá okkur var þetta dálítið mikið það að Reynir var náttúrulega tíu árum yngri en ég, hann hafði heyrt mig náttúrulega tala um gay-lífið í Köln og svona, hvernig þetta hafi nú allt saman verið og hann var náttúrulega dálítið spenntur fyrir því að sjá hvað væri að gerast útí heimi.
Manni fannst maður vera svoldið einangraður hérna heima. Það var miklu meiri munur á Reykjavík og borgum hérna í kring eins og London og Kaupmannahöfn, lífinu hér og lífinu þar, heldur en er núna. Og útaf þessari eilífu haftastefnu að það mátti ekki neitt og fólki var haldið beinlínis niðri. Það var yfirstéttin sem gat farið til útlanda, þeir sem höfðu minna fé milli handanna þeir gátu vissulega líka farið, það var ekkert svoleiðis, það var ekki eins og Austur -Þýskaland að það væri beinlínis bannað, en það kostaði töluverða peninga og þó þú ættir peninga hérna á Íslandi að þá þýddi það ekki að þú gætir farið með það allt útí lönd, þú þurfir að sækja um gjaldeyri og gjaldeyrir var veittur. Þú áttir ekkert rétt á því kaupa erlenda peninga heldur var gjaldeyrisnefndin með fund á þriðjudögum og þá er þér veittur gjaldeyrir, færð svo-og-svo mikið og ekki meir! Þetta var ekkert mjög einfalt. Og maður hafði þessa tilfinningu, að meira að segja að komast til útlanda það var alveg bara fílingurinn: „Vááá, ég er að fara!“ og fólk sá fyrir sér svolítið útlönd í dálitlum ljóma. Að ég tala nú ekki um fyrir gay-lífið, því hérna var nákvæmlega ekki neitt.
[…] auðvitað fer fólk til höfuðborgarinnar það segir sig sjálft. Kaupmannahöfn var nákvæmlega jafn mikil höfuðborg fyrir hommana eins og fyrir aðra. Reyni langaði náttúrulega mikið að upplifa þetta aðeins og var nákvæmlega á þeim aldri, rétt að verða tvítugur […] að fá að kíkja á þetta, svo við ákváðum að bara flytjast í burtu og fara til Kaupmannahafnar, sjá hvað hægt væri að gera þar og svona. Í janúar ´78 þá fórum við burt og við vorum meira að segja svo flottir á því að við fórum fyrst til London svo Kölnar og svo til Köben, tókum svona létt ferðalag útúr þessu leiðinni.
Í janúar, ég man alltaf eftir þessu, þetta er algerlega í lok janúar 1978 að þá héldum við svona kveðjupartý á Laugarveginum og sem sagt þá var búið að rýma alla íbúðina, bara svona tvö samstæð sófasett eftir svo að þetta leit svona ágætlega út og það var boðið öllu saman, en það mátti enginn koma nema í grímubúningi. Það var náttúrulega farið tveim, þrem kvöldum áður og kíkt á allar grímubúningaleigur sem til voru hér og ég man að sem sagt að þetta var svona skemmtilegt að svona tvö, þrjú kvöld á undan, að vera kominn með haug af einhverjum undanlegum fötum og Reynir hafði mjög gaman af því að leika sér í þessu og fara í einhver undarlega föt, mjög sérkennilegir hlutir sem voru til, en þetta þýddi það að við söfnuðum alveg sæmilegum haug af þessu, þá var líka hægt að lána fólki hitt og þetta. Og þetta tókst alveg, fólk var alveg til í að gera þetta, það var líka tilefni til þess, það þarf alltaf að vera fyrirpartý, það er alveg nauðsynlegt. […] það eru til mjög skemmtilegar myndir af þessu, til dæmis þar sem stoppar leigubíll fyrir utan og maður í kjól með hvíta hárkollu kemur út, eins og limmósína fyrir einhverja fræga manneskju þarna. Þetta var mjög skemmtilegt, þetta var alveg meiriháttar partý.
Brot úr viðtali við Veturliða Guðnason, 2004