SKÆRULIÐAR UPPI Í ESJU
Það vantaði ekki, það var sama við hvern maður talaði, því var alltaf tekið ægilega vel. Þangað til að farið var að ræða þessi mál og hvernig ætti að koma þessum forvarnaráróðri til skila. Það var það eina sem hægt var að gera, það var engin lækning, skilurðu, þá kom maður að þessum gúmmívegg. Það var ekki hægt, það var einhverju að kenna og það var borið við þessu og borið við hinu. Það var bara ekki hægt að búa til áróðursefni sem var stílað beint til homma. Það var bara ekki hægt. Gekk ekki.
[…] það endaði með því að við Böðvar [Björnsson] bjuggum til greinargerð. Ég man við tókum eitthvert svona línurit sem við klipptum út úr Times. Þetta var nátturulega út um allan heim, við erum alveg læsir á ensku og þýsku og dönsku og þó það væri ekki komið internet þá var maður ekkert fastur hér í einhverri fáfræði. En við bjuggum til svona greinargerð og þetta vorum við Böðvar og Þorvaldur. Hann var með í þessu. Og við ræddum þetta saman, þetta var ekkert „one man show“, þetta var eitthvað sem allir voru raunverulega sammála um. Þetta er til einhvers staðar ennþá. Þetta var sett í gula möppu, gekk undir nafninu gula mappan. Þar var fremst þetta línurit úr Times sem sýndi hvernig þróunin var í þessu dóti, hvernig það [alnæmi] steig upp rosalega. Bara tala þeirra sem féllu úr þessu og svo kom textinn og hann var alveg VIÐ KREFJUMST og við krefjumst og við krefjumst og svo lögðum við þetta inn til landlæknisembættisins og svo átti að vera fundur.
Svo mættum við á fund þarna niður frá og það var þónokkuð af fólki þarna. Svo kemur Ólafur landlæknir inn, stendur fyrir framan okkur og byrjar að þusa og segir: Ég ætlaði nú ekkert að vera á þessum fundi. Ég ætla nú samt að koma hérna inn og segja: Ég hef aldrei nokkurn tíma séð annað eins. Við höfum læknað plágur hérna og svo kom holdsveikin og berklarnir og allt þetta og aldrei hefur komið inn á borð til okkar annað eins ósvífið plagg. Ef þið haldið svona áfram þá endið þið sem skæruliðar uppi í Esju! Þá höfðu þeir aldrei nokkurn tímann fengið þetta orðalag frá einum eða neinum að fólk krefðist þessa og þessa, það væri ekki hægt. Kannski var þetta dónalegt hjá okkur, það getur vel verið, en þetta samsvaraði því skapi sem við vorum í. Og við vorum alveg lafhræddir við þetta.
Brot úr viðtali við Veturliða Guðnason, 2005