EINS OG VÍGVÖLLUR
Í viðbót við sko náttúrulega þetta að manna sig upp í og harka af sér að fara og tala um þessi málefni við frekar skilningsvana fólk innan heilbrigðiskerfisins, þá náttúrulega bara stóðum við á miðju átakasvæðinu; hommarnir og lesbíurnar. Þetta var auðvitað bara eins og vígvöllur. Það er ekkert hægt að kalla þetta neitt annað. Það voru kannski jarðarfarir bara nánast einu sinni í viku. Ungir menn jafnvel innan við þrítugt voru bara að deyja viku eftir viku eftir viku, og sko maður kemur inn í Samtökin [’78] til að leita sér að lífi, lífsgleði, tilgangi, fjölskyldu, og það sem þú færð í hendurnar er heimsstyrjöld. Þú ert með deyjandi félaga þína í fanginu. Þú veist, það er ekki hægt að bjóða fólki upp á þetta, þetta var, sko ef trauma á við um eitthvað þá er það reynsla okkar sem að horfðum á eftir vinum okkar í gröfina aftur og aftur. Og einhvern veginn var enginn tilbúinn til þess að styðja okkur. Ekki fjölskyldurnar, ekki heilbrigðisyfirvöld og maður sat í jarðarförum aftur og aftur þar til, ég gafst upp á þeim ég bara get þetta ekki, bara get ekki farið í þessar jarðarfarir. Og það var þagað og þagað og þagað yfir því afhverju viðkomandi hafði dáið. Ekki minnst á samkynhneigðina, ekki minnst á eftirlifandi kærasta, ekki minnst á AIDS, ekkert. Veistu þetta er alveg svona, hnífnum var bara snúið í sárunum, bara endalaust.
Lana Kolbrún Eddudóttir, janúar 2017