skip to Main Content

ALNÆMIÐ FLÝTTI FYRIR

Það var nefnilega ekki hamingja okkar sem hreyfði mest við löggjafanum. Það var óhamingjan og dauðinn, sjúkdómurinn alnæmi. Það hafði langmest áhrif á það að samviska þjóðanna, þar á meðal Íslands, vaknaði. Sá raunveruleiki að við vorum veik, menn voru deyjandi, fjölskyldur voru enn á dánarbeði einhvers hommans að halda makanum í burtu, menn fengu ekki erfðarétt eftir ára og áratuga sambúð, fleira og fleira. Þegar óhamingjan dynur yfir þá hrekkur samviskan í gang og þá fer löggjafinn fyrst og fremst af stað. Ég hef alltaf haldið því fram að þetta, þetta var það sterkasta afl sem hreyfði við því að skapa réttindi og virðingarvert samfélag fyrir lesbíur og homma. Langsterkasta. Og ég skynja þetta svo sterkt þegar ég tek við Samtökunum [’78] og var búin að fylgja mörgum til grafar að þessir strákar þeir höfðu ekki dáið til einskins. Þeir lögðu fram óhamingjuna og sársaukann sem var ekkert hægt að fela fyrir umheiminum lengur. Það var ekki hægt. Þeir gerðu okkar kröfu fullkomlega sýnilega og það er sárt að hugsa til þess hvílíka óhamingju, hvílíkan sársauka og veikindi þurfti til á meðan hamingjan okkar hreyfði varla við nokkrum manni, ef þið skiljið hvað ég er að fara. Mér hefur alltaf fundist þetta svo merkilegt.

Á miðnætti þegar lögin gengu í gildi, fyrsta jákvæða viðurkenningin á að við værum til og við mættum vera til í íslensku samfélagi, þessi stóru vatnaskil sem í mínum huga marka bara áður og eftir fyrir okkur gay fólk, þá vorum við með samkömu í Fríkirkjunni sem hafði verið eina kirkjan sem alltaf bauð okkur velkomin, var fyrst að halda alnæmismessurnar og slíkt. Þarna vorum við á miðnætti og biðum eftir því að klukkan yrði tólf og að við gætum stigið út í sumarnóttina sem fólk með réttindi og virðingu. Fólk sem átti sér m.a.s. lagastoð í íslensku samfélagi. Og þá var ég með ávarp þar sem ég var að kveðja alla félagana okkar sem í raun og veru gerðu þessa stund mögulega. Alnæmi flýtti okkar réttindum um aldarfjórðung, eða það er mitt mat. Og við megum aldrei gleyma þessu. Og við megum ekki gleyma því í dag þegar allt virðist sjálfsagt. Við skulum alltaf hugsa til baka. Það sem hefur gerst getur alltaf gerst aftur, og meira að segja það sem hefur aldrei gerst getur líka gerst. Við skulum aldrei vera of viss eða róleg í trúnni og við skulum muna eftir því, fólk sem að lifir hamingju sína í dag, að við eigum stóra þakkarskuld að gjalda við strákana okkar sem kvöddu þegar alnæmisfaraldurinn gekk yfir. Mér finnst þetta bara alltaf skipta svo miklu máli. Við grétum öll eins og börn. Því við tókum örlitla þögn til þess að minnast þeirra og gengum síðan sem fullgildir þegnar loksins út í miðnætursólina, augnablik sem ég mun aldrei gleyma. Þá þökkuðum við þessum strákum. Það er svo skrítið hvað hamingjan er áhrifaminni en sársaukinn.

Margrét Pála Ólafsdóttir, 2017

 

Back To Top