skip to Main Content

HAFNAÐI ÖLLU HETERÓ

Það sem mér finnst merkilegt við þessa Kaupmannarhafnardvöl svona eftir á, er það hvað maður var eitthvern veginn rosalega innilokaður í þessu gay samfélagi […] að maður var orðinn svo þyrstur eftir því að geta lifað í þessu samfélagi að þegar maður loksins kom til Kaupmannahafnar að þá bara lokaði maður sig inni í þessu gettói. Ég veit ekki hvernig á þessu stóð, en það var svolítið svona pólarisering í þá áttina að manni fannst allt sem var straight vera gjörsamlega glatað.

Sett svona út á jaðar þjóðfélagsins verður fólk nátttúrulega óneitanlega dálítið gagnrýnið á þetta þjóðfélag. Og ósjálfrátt tengir maður þetta saman, straight og þjóðfélagið og gay og okkar samfélag. Og þetta þýddi það að maður raunverulega snéri sér á móti öllu þessu samfélagi svokallaða sem að straight fólkið hefur og bara vildi útiloka sig frá því, vildi ekkert hafa með þetta að gera. Og í Kaupmannahöfn var þetta afskaplega auðvelt mál, að við bjuggum þarna í sæmilega stórri íbúð og fínni, höfðum mikið samband við svona aðra Íslendinga sem voru á nákvæmlega sömu nótum og við og áttum danska vini, ekki mikið en þó eitthvað líka, og lifðum bara og hrærumst í gay samfélaginu í Kaupmannahöfn og maður fór ekkert út fyrir það. Við bjuggum þarna við endann á Søerne, ég vann á hóteli rétt hjá Ráðhúsinu. Ég bjó þarna í fjögur ár og svei mér þá, að mitt svæði þarna, það náði frá Vesterbrogade niður á Kongensnytorv, uppá Nørrebrogade og útí Kristjanshavn. Annað fór maður ekki. Að við hefðum kannski fengið okkur bíl og keyrt aðeins útá Fjón eða yfir á Jótland eða eitthvað svona, eða farið yfir sundið til Malmö, Nei!!! Að maður hefði farið í leikhús, nei, að maður hefði farið að sjá söfn, nei, þetta kom manni ekkert við! Þetta var allt eitthvað djöfulsins straight kjaftæði sem kom manni bara ekkert við.

Núorðið sé ég svolítið eftir þessu og þetta hefur náttúrulega mikið skánað, en þessi reaksjón hjá okkur held ég hafi verið svolítið algeng. Og þetta held ég að hafi verið svona hlutur sem fólk áttaði sig ekki alveg á, að með því að ýta gay-liðinu svona alveg útá jaðarinn, að þá fékk það líka til baka gjörsamlega fyrirlitningu og and-sósíalhegðun. Þetta hefur mikið skánað hjá mér […] en enn þann dag í dag finn ég alveg fyrir þessu, að maður hefur svona, viðbrögð við því sem er að gerast í samfélaginu, sem eru ekki eðlileg. Það er náttúrulega ekkert sniðugt. Á ekki að vera þannig.

Brot úr viðtali við Veturliða Guðnason, 2004

 

Back To Top